Tilkynning frá Óháða söfnuðinum vegna COVID-19

Í samráði við sóttvarnaryfirvöld hefur verið tekin sú ákvörðun að Óháði söfunuðurinn standi ekki fyrir neinum athöfnum eða helgihaldi á meðan samkomubann stendur yfir í landinu. Ekkert starf mun því fara fram í kirkjunni fyrr en samkomubanni lýkur en næsta messa er áætluð 26. apríl og vonast er til að sú dagsetning standi.

Að fella niður starf í kirkjunnar okkar, þó tímabundið sé, er ekki sú ákvörðun sem við viljum taka. Á þessum fordæmalausu tímum í samfélaginu verðum við samt sem áður að fylgja leiðbeiningum og sýna ábyrgð gagnvart fólkinu okkar og þá sérstaklega þeim sem eru í viðkvæmri stöðu.

Þó við sjáum okkur knúin til að loka hurðinni þar til samkomubannið er yfirstaðið þýðir það ekki að okkar kæri prestur, séra Pétur Þorsteinsson, ætli að taka sér frí. Hann er áfram til staðar fyrir hvern þann sem á þarf að halda og vilji einhver ná tali af honum má endilega hafa samband við hann í síma 860-1955 eða í tölvupósti afdjoflun@tv.is

Það er okkar von að safnaðarfólk sýni þessu skilning og við hlökkum til að sjá sem flesta þegar þessi vá er yfirstaðin og við opnum dyrnar aftur.

Í millitíðinni hvetjum við fólk til þess að rækta trúna í hjarta sínu sem fylgir okkur hvar sem við erum og í öllu sem við gerum. Leggjum áherslu á náungakærleikan á þessum tímum og höfum í huga að eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.

Með kveðju stjórn Óháða safnaðarins

Deila