Pistill Kristins Björgvins Þorsteinssonar bassa í KÓSÍ jóladag 2014

Kirkja Óháðasafnaðarins 25. desember 2014
Gleðileg jól kæru kirkjugestir!
Á jólum fögnum við fæðingu Frelsarans Jesú Jósefssonar frá Nazaret í Galíleu, sem fæddist í fjárhúsi suður í Betlehem og var lagður í jötu, ekki Lödu eins og einhver krakki misheyrði. Þarna þurftu þau Jósef og María að ferðast frá Nazaret til Betlehem til þess að láta skrásetja sig skv. fyrirskipun frá Ágústusi keisara. Þau urðu að fara þessa ferð, þótt ekki stæði vel á hjá þeim, María kasólétt, en það var engin miskunn sýnd. Keisarinn vildi skrásetja alla heimsbyggðina, hvorki meira né minna, til þess að enginn kæmist undan skattlagningu.
María mey var heitbundin Jósef Jakobssyni. – Mattheusarguðspjall hefst á ættartölu Jósefs, sem var nú bara sagður vera stjúpfaðir Jesú og þar eru tilgreindir, hvorki meira né minna en 28 ættliðir og endar þannig: Eleasar gat Mattan, Mattan gat Jakob og Jakob gat Jósef mann Maríu. Lítið er hins vegar sagt frá ætt Maríu, sem var þó sannanlega móðir Jesú, en skv. mínum bókum hét faðir hennar Jóakim og móðir hennar Anna. María var því Jóakimsdóttir. Meira veit ég ekki um ættir Maríu.

Jesús fæddist meðan Heródes var konungur Rómverja í Ísrael. – Heródes var konungur frá árinu 37 fyrir Krist. Hann hefur því trúlega verið a.m.k. 60 ára þegar Jesú fæddist. Hann frétti að Jesú væri kallaður: ”Hinn nýfæddi konungur Gyðinga.” Þá varð Heródes dauðhræddur um að missa völdin, sem var auðvitað algjör fásinna. Jesús hefði nú varla verið tilbúinn í valdatöku fyrr en um tvítugt. Þá hefði Heródes verið annað hvort dauður eða orðinn 80 ára gamalmenni og kominn á eftirlaun. En tveggja ára var Jesú, sem sagt í mikilli lífshættu vegna hans. Sagt er að Jósef hafi flúið til Egyptalands með Maríu og Jesúbarnið vegna þessa og dvalið þar uns Heródes var allur og flutti þá til Nazaret.
Eitt er það sem kristnir menn þurfa að glíma við enn þann dag í dag. Það er spurningin um meyfæðingu. María var auðvitað efins þegar Gabríel erkiengill birtist henni 25. mars árið 1 f.kr. og sagði: „Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og eignast son og þú skalt láta hann heita JESÚ. Hann mun verða mikill og kallaður sonur Hins hæsta.
En hún sagði: ,,Hvernig má þetta verða þar eð ég hef ekki karlmanns kennt? Engillinn svaraði: Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur Hins hæsta mun yfirskyggja þig. Þess vegna verður barnið heilagt, sonur Guðs. (Já! Sonur Guðs, en Kvennakirkjan segir að Guð sé KONA. Svolítið mótsagnarkennt!) Og engillinn gat sannfært Maríu, sem endaði með því að hún sagðist fara eftir Guðs vilja.
Þá varð nú til þessi vísa á tölvuöld:

Maríu fylgdi maður sem
til manntals fór til Betlehem.
Geistlega hana gerði bomm
Gud@himnum.com
Auðvitað brá Jósef, þegar María tilkynnti honum, að hún væri barnshafandi og að hann væri ekki pabbinn. Hann varð auðvitað grautfúll og var kominn á fremsta hlunn með að skilja við hana, þegar engill Drottins birtist honum í draumi og bað hann í Guðanna bænum að gera það nú ekki. Og Jósep fór að vilja engilsins, enda hefur hann verið óvenju góður maður, guðhræddur, auðtrúa og skilningsríkur. Ég persónulega hallast nú frekar að því, að Jósef hafi nú hjálpað eitthvað til? Enda valdi Guð þau til að gegna hlutverki foreldra Jesú. Þess er nú kannske ekki heldur krafist, að við trúum textanum bókstaflega, en við getum ráðið því, hvernig við túlkum hann. En svo þarf maður ekki endilega að skilja eða vita allt.
En ég hef verið að velta því fyrir mér með Vitringana þá Kaspar, Melkíor og Baltasar. Þeir gáfu Jesú-barninu: Gull, reykelsi og myrru.
Voru þetta gáfulegar gjafir handa litlu barni? Mér finnst þetta nú frekar óvenjuleg sængurgjöf. Ég hefði nú haldið að klæði og barnamatur hefði nú komið sér betur. Jósef hefur nú kannske getað selt gullið og keypt fyrir það eitthvað nytsamlegt. En reykelsi handa litlu barni. Það er nú varla holt. Myrra er þykk trjákvoða úr hitabeltistrjám, sem hvu lykta sæmilega, en kannske mátti nota það sem “baby oil”. En hvað með það; þessar gjafir áttu víst að vera virðingarvottur við Jesúbarnið.

Nú er ég að hugsa um að færa mig fram um rúmlega 1940 ár og það alla leið til Íslands:
“Fullvel man ég fimmtíu ára sól – fullvel meir ein hálfrar aldar jól.” Þannig hefst kvæðið Jólin 1891” eftir Matthías Jochumsson. Ég gæti vel tekið undir þetta, því að ég man nú vel eftir jólum fyrir hálfri öld og gott betur. Bernskuheimili mitt var í litlu 30 ferm húsi í vesturbæ Reykjavíkur og húsið hét Lila-Skipholt. Þetta ljóð eftir Matthías er 14 erindi, en móðir mín kenndi okkur bræðrunum þrjú fyrstu erindin, sem pössuðu vel við okkar fjölskyldu, af því að við bræðurnir vorum fjórir eins og segir í ljóðinu. Sex íbúar í þessu litla húsi og þarna bjuggum við fram til ársins 1950.

Fullvel man ég fimmtíu ára sól,
Fullvel meir en hálfrar aldar jól.
Man það fyrst er sviptur allri sút
sat ég barn með rauðan vasaklút.

Kertin brunnu bjart í lágum snúð.
Bræður fjórir áttu ljósin prúð.
Mamma settist sjálf við okkar borð
Sjáið; . . ennþá man ég hennar orð.

Þessa hátíð gefur okkur Guð
Guð sem skapar allan lífsfögnuð
Án hans gæsku aldrei sprytti rós
Án hans náðar degi sjérhvert ljós.

Jólin í Litla-Skipholti voru alltaf mjög hátíðleg. Húsið var alltaf skreytt á Þorláksmessu og jólatréð á aðfangadagsmorgni. Á þessum árum var ekki byrjað að skreyta í nóvember. Allir í spariföt og “ilmurinn úr eldhúsinu var svo lokkandi.” Og eftirvæntingin var mikil. Föðuramma mín og föðursystir og fjölskylda komu alltaf til okkar fyrir kl. 6 á aðfangadagskvöld. Því að jólamaturinn var alltaf snæddur á slaginu kl. 6. Jólagrautur m/ möndlugjöf og síðan kjötréttur. Rjúpur voru aldrei snæddar á mínu heimili. Allir hlustuðu á jólamessuna í útvarpinu. Að hlusta á jólamessu úr Dómkirkjunni var og er alveg sérlega hátíðlegt, og hápunkturinn er auðvitað þegar Dómkórinn syngur sálminn Heims um ból. Ætli fólkinu í Siðmennt og Vantrú finnist það ekki líka svolítið hátíðlegt?
Eftir að jólagjafir höfðu verið opnaðar var gengið í kringum jólatréð og jólalögin sungin. Pabbi átti píanó í þessu litla 30 ferm. húsi “Steinway og sons” (Hann kallaði það Steini og synir hans) og hann spilaði og söng með okkur öll jólalögin: Göngum við í kringum einiberja runn, Gekk ég yfir sjó og land….o.s.frv.Upp á stól stendur mín kanna- er nú í nýrri skilgr. Upp á hól stend ég og kanna. Annað jólalag fer nú mjög í taugarnar á jafnréttissinnuðum þ.e. þessi ljóðlína: Hann fékk bók, en hún fékk nál og tvinna. Þessu má nú bjarga með því að syngja þetta erindi tvisvar og þá í seinna skiptið Hún fékk bók, en hann fékk nál og tvinna. – Almennt var sungið meira í heimahúsum á jólum, en nú til dags, enda var þá ekkert sjónvarp. Fólk varð að skemmta sér sjálft. Jólatréð var gerfi jólatré með logandi kertum, þessum litlu snúnu marglitu. Þannig, að það þurfti að fara varlega; eldhættan var mikil. Og það kom oft fyrir að kviknaði í jólatrjám á þessum árum, t.d. í skólanum mínum, Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. þar þurfti skólastjórinn okkar einu sinni að hlaupa út með brennandi jólatré. -Á jóladag og annan í jólum fórum við svo í heimsóknir til ættinga og alltaf var mikið sungið og alltaf var gengið eða dansað í kringum jólatréð.

Á þessum árum voru epli og appelsínur aðeins til í matvörubúðum í mesta lagi í hálfan mánuð fyrir jól og stundum brást það. Það voru innflutningshöft og vöruúrval í verslunum var mjög fátæklegt. Og ég man eftir skömmtunarseðlunum. Allt sem þurfti að flytja inn í landið var skammtað. Ísl. þjóðin átti svo lítinn gjaldeyri og tók helst ekki erl. lán.

Og í blaðagrein 1947 var eftirfarandi frétt: Félag matvörukaupmanna hefur skorað á ríkisstjórnina að hlutast til um innflutning nýrra ávaxta fyrir jólin. Það má ekki minna vera, en þjóðin fái að nærast á hollum, vítamínríkum ávöxtum í hálfan mánuð eða svo árlega. Við heimtum epli og appelsínur fyrir jólin”.

Jólagjafir á þessum árum voru auðvitað ekki bara “kerti og spil“, líka bækur, fatnaður og leikföng, framleidd innanlands. Vöruúrval í verslunum var ekki mikið, mest innlend framleiðsla. Það er svolítið öðruvísi í dag, enda innflutningur algjörlega frjáls og þjóðin skuldug upp fyrir haus. En nú eru sem sagt breyttir tímar og gjörbreyttar kröfur. Börnin verða að fá eitthvað úr tölvuheiminum, spaldtölvu eða GSM síma af fullkomnustu gerð. Og svo er alls ekki sama, hvað maður gefur konunni sinn í jólagjöf nú til dags, sem var í GÓDU lagi í gamla daga: Maður má t.d. alls ekki gefa henni eldhúsáhöld eða heimilistæki t.d. brauðrist eða ryksugu.. Algjör dauðasynd. Maður yrði að sofa í sófanum í stofunni fram yfir áramót. Nú vilja þær eitthvað persónulegt eitthvað, sem er bara fyrir þær. Þó er ennþá verra, ef menn gefa konunni sinni eitthvað, sem þá langar sjálfa í eins og t.d. veiðistöng, borvél, haglabyssu, garðsláttuvél eða utanborðsmótor. Það hafa ýmsir brennt sig á þessu.

Varðandi gjafakaup dettur mér í hug eftirfarandi saga:
Dómari nokkur var heldur pirraður, þegar hann var kallaður til dóms á aðfangadag, og spurði sakborninginn harkalega:
„Fyrir hvað ert þú eiginlega ákærður?“
„Fyrir að gera jólainnkaupin snemma.“ svaraði sakborningurinn.
„Það er nú varla refsivert,“ sagði dómarinn; „hversu snemma gerðir þú þau?“
„Áður en búðirnar opnuðu!“

Á jólunum eiga öll dýrin í skóginum að vera vinir og maður er manns gaman. Enginn vill vera einn á jólunum. Í tilefni af því dettur mér í hug önnur saga, sem ég heyrði: Seint á aðfangadagkvöld fékk slökkviliðið hringingu frá konu einni, sem sagði: „Það er maður að reyna að komast inn um gluggann hjá mér.” Slökkviliðsmaðurinn svarar: „Er þá ekki eðlilegra að þú hringir í lögregluna?”Nei, þú skilur ekki svaraði konan, hann vantar lengri stiga.

Fullvel man ég fimmtíu ára sól, fullvel meir en hálfraraldar jól. Ég man eftir jólum fyrir 50 árum. þá var ég orðinn heimilisfaðir sjálfur og þurfti þá að standa mig. Við áttum þá þriggja ára dóttur og þá var kominn þessi siður að setja skóinn út í glugga. Ég var nú frekar duglegur að semja við jólasveininn og við reyndum að hafa þetta fjölbreytt og einu sinni setti hann klementínu í skóinn hennar. Daginn eftir gleymdi ég að versla fyrir jólasveininn, en við áttum fleiri klementínur og urðum því að setja klementínu aftur í skóinn hennar. Þegar hún gáði í skóinn um morguninn, hrópaði hún: “ Aftur með klementínu! Hann er nú eitthvað klikkaður þessi jólasveinn.”

Og að lokum ætla ég að segja ykkur frá öðru atviki, sem kom fyrir hjá mér nokkrum jólum síðar: Þá þurfti ég að hjálpa jólasveininum eins og stundum áður og læddist inn í herbergi eldri sonar okkar, sem þá var 8 ára, og hann var með lokuð augun, en reyndist ekki vera sofandi. Þannig að hann sá til mín. Greinilega verið með grunsemdir. Daginn eftir sagði hann frænda sínum, sem var þrem árum yngri, frá þessu og hann sagði pabba sínum þetta, sem sagði mér frá þessu. Svona fara sögur stundum í hring. En strákurinn sagði pabba sínum frá þessu svindli á eftirfarandi hátt: “Hann sá þegar pabbi hans látti í skóinn! Nú var hann ekki sofandi? Nei, en hann þykktist vera sofandi. Og hvað gerði hann þá spurði pabbinn? Hann halti bara áfram að sofa!”

Nú, ég vil svo bara að lokum, enn og aftur óska ykkur gleðilegra jóla og megi Guð og gæfan fylgja ykkur öllum inn í nýja árið!