Útför

Jesús sagði:

„Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig, mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem trúir á mig, mun aldrei að eilífu deyja.“ Jh.11.26.

Þegar einhver úr söfnuðinum deyr þá fer fram útfararathöfn, venjulega í kirkju, og síðan greftrun í kirkjugarði. Undanfari hennar er kistulagning , sem er bænastund með aðstandendum þegar hinn látni hefur verið lagður í kistuna, og áður en kistunni er lokað. Þessi bænastund er alltaf haldin og einnig þegar fram fer bænastund með ástvinum við andlátið sjálft eins og eðlilegt er.

„Moldin hverfur aftur til jarðarinnar, þar sem hún áður var, en andinn til Guðs, sem gaf hann.“ Pd.12.7

Einkenni útfararathafnarinnar er hin kristna von um upprisu og eilíft líf. Jesús Kristur frelsar frá dauðanum. Í trú á hann leggjum við þau sem við kveðjum í vígða mold. Grafreitir og kirkjugarðar eru sérstaklega helgaðir í þessu skyni, nema þeir reitir sem ætlaðir eru fyrir þau sem eru utan kirkju eða tilheyra öðrum trúarsamfélögum.

Oftast eru þau sem deyja jarðsett í venjulegri kistu, en ef líkbrennsla hefur farið fram að lokinni útfararathöfninni þá er duftkerið jarðsett. Í flestum kirkjugörðum er minnismerki eða reitur vegna þeirra sem drukkna og finnast ekki, eða týnast með öðrum hætti. Þá er haldin minningarathöfn í kirkjunni, en blómsveigur lagður við minnismerkið.

„Ég er þess fullviss, að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi, né hið ókomna, hvorki kraftar hæð né dýpt, né nokkuð annað skapað muni geta gjört oss viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú Drottni vorum.“ Rm.8.38-39.