Ræða Bergþórs Pálssonar á aðventukvöldi 2015

Ræða á aðventukvöldi Óháða safnaðarins 6. des. 2015

Kæru vinir.

Ég vil byrja á að þakka af heilum hug fyrir að fá að vera með ykkur í kvöld.

Út með illsku og hatur, inn með gleði og frið, segir í alþekktu lagi Magnúsar Eiríkssonar. Þegar ég var barn, var veröldin einfaldari en hún varð síðar. Ég hugsaði til dæmis með mér: Af hverju eru stríð? Enginn hefur það betra að þeim loknum, en fjölmargir liggja sárir eftir eða hafa misst ástvini sína. Hverju er mannkynið þá bættara með því að ana aftur og aftur út í þessa vitleysu?

Seinna komst ég að því að það er ekki eins auðvelt að semja um hagsmuni og það virðist vera. Við viljum ekki láta taka neitt af okkur. Það er eðlilegt. Við erum æst upp í því að við munum sitja eftir þjáð og fjötruð ef einhver annar ræðst með uppivöðslusemi og frekju inn í okkar helgu vé og þess vegna tekur mannskepnan þátt í hildarleiknum með ráðamönnum.

Lausnin er því ekki eins einföld og hún virtist vera þegar ég var lítill og sennilega getum við ekki upprætt hræðsluna. Óttann við að einhver framandi taki eitthvað frá okkur. Þrátt fyrir það býr von í okkur öllum, vonin um frið.

Jesús sagði: ,,Eitt sinn fór maður um veginn sem liggur frá Jerúsalem til Jeríkó. Á leiðinni réðust ræningjar á hann. Þeir rifu fötin utan af honum, rændu hann og börðu til óbóta. Þeir stungu síðan af og skildu manninn eftir nær dauða en lífi.

Prestur nokkur fór um sama veg. Þegar hann sá manninn strunsaði hann yfir á hina vegarbrúnina og hraðaði sér framhjá. Og sama gerði aðstoðarmaður prestsins sem fór um veginn skömmu síðar. Hann hljóp við fót þegar hann sá hvers kyns var.

Um þennan veg fór líka Samverji nokkur, útlendingur. Hann sá manninn liggja særðan á veginum og fann sárlega til með honum þar sem hann lá í blóði sínu, einn og yfirgefinn. Hann gekk til hans, batt um sár hans og hlúði að honum. Síðan lyfti hann honum upp á asna sinn og fór með hann á gistihús og lét sér annt um hann. Næsta dag rétti hann gestgjafanum tvo silfurpeninga og sagði við hann: ,,Hugsaðu vel um hann. Og ef það kostar meira en þetta þá borga ég þér á bakaleiðinni.”

Jesús spurði: ,,Hver þessara manna kom fram við særða manninn eins og náunga sinn?”

Sagan um miskunnsama Samverjann hefur stundum leitað á hugann eftir því sem fleiri fréttir hafa borist af fólki frá stríðshrjáðum svæðum sem er að flýja voðaverk, glundroða og upplausn í heimahögunum. Það knýr dyra á Vesturlöndum, allslaust, með grátandi börn og í örvæntingu sinni biður það ásjár.

Ofan á þetta bætast voðaverkin í París sem eru þyngri en tárum taki. Það er mannlegt að við séum hrædd við hið óþekkta og hætturnar leynast víða. Við leitum öll með logandi ljósi að haldbærum skýringum og lausnum í framhaldi af því, til að koma í veg fyrir að hin óskiljanlega grimmd endurtaki sig og teygi jafnvel anga sína til Íslands.

Margir telja sig hafa svarið, viðbrögðin eru margslungin. Sumir álíta að svarið sé umburðarlyndi og kærleikur, en aðrir telja það einfeldningslegt og sumir ganga svo langt að segja að réttast væri að loka landinu fyrir öllum sem upprunnir eru í múslimskum trúarheimi.

Við finnum alls kyns rök til að fara yfir á hina vegarbrúnina og hraða okkur framhjá þegar við sjáum hvers kyns er.

Skyndilega eru aldraðir, sjúkir og fátækir heima fyrir, orðnir okkur mjög hjartfólgnir og við bendum á að við ættum að hreinsa til í okkar eigin garði áður en við förum að hreinsa til í bakgarði náungans. Það er vel! Það er vel að við finnum fyrir miskunnsemi í garð þeirra sem standa höllum fæti í túnfætinum hjá okkur sjálfum. Það er vel.

En af hverju berjumst við ekki alltaf fyrir betra lífi þeim til handa? Það er talað um uppsveiflu. En hvar er hún? Er hún hjá þeim sem standa höllum fæti? Af hverju erum við ekki búin að taka til í eigin ranni og af hverju dettur okkur það fyrst í hug þegar flóttafólk ber á góma?

Í öðru lagi bendum við á að þarna sé um að ræða fólk frá fjarlægum menningarheimum og að við vitum ekkert upp á hverju það geti tekið með alla sína framandi siði.

Það mætti halda að ég væri að lýsa rotnu og fúlu eiginhagsmunasamfélagi sem við búum í. Ekkert er fjær sanni. Ég er innilega þakklátur fyrir að hafa fæðst á Íslandi. Þegar öllu er á botninn hvolft, eigum við gott, gjöfult og ægifagurt land og þjóðin hefur að geyma ótrúlega margt kjarnmikið og velviljað fólk. Við lítum svo á að við búum í opnara, frjálsara og lýðræðislegra þjóðfélagi en margir eiga við að búa. Við búum við forréttindi að mörgu leyti.

En einmitt af því að þjóðfélagið er frjálsara en gengur og gerist víða, freistumst við stundum til að skjóta fastari skotum en hollt er í hita leiksins. Ef okkur líður ekki vel í hjartanu, tökum við það oft út á öðrum.

Ef til vill erum við öll svolítið óttaslegin innst inni, kannski hræddust við að hafa ekki svarið og þá er freistandi að halda dauðahaldi í eitthvað sem við teljum vera lausn, að skipa sér í flokka, þar sem allt sem andstæðingurinn segir er tóm vitleysa.

Við þurfum að læra betur að hlusta, – gæta hófs á vígvöllum netheimanna, – hlusta á rök þeirra sem ekki eru okkur sammála. Kannski höfum við öll svolítið rétt fyrir okkur og ef við hlustum hvert á annað eru meiri líkur á að við getum mæst á miðri leið.

Að vera á varðbergi þarf ekki að þýða að við köstum allri mannúð og kærleika fyrir róða. Ef við leggjum okkur fram um að ræða málin á hófstilltan hátt, komumst við hugsanlega að því að það leynast sannleikskorn hjá þeim sem við teljum okkur í fyrstu ekki vera sammála.

Sannast sagna er miklu fleira sem sameinar okkur sem þjóð en sundrar. Einhvers staðar inni í hverjum og einum býr fræ góðmennsku. Sum þessara fræja hafa verið fótum troðin og þeim þarf að hlúa betur að og vökva oftar en önnur. En sumar aðstæður sýna okkur að í raun og veru viljum við öll rækta með okkur góðvilja og samkennd. Skemmst er að minnast þess þegar snjó tók að kyngja niður í vikunni. Þá var gaman að fylgjast með fólki hjálpa þeim sem voru í vandræðum, það hægðist á mannlífinu og við höfðum tíma hvert fyrir annað. Við finnum til samkenndar þegar náttúruöflin sýna klær sínar í snjóflóðum, jarðskjálftum eða öðrum hörmungum sem yfir dynja og svipta fólk eignum sínum og lífsviðurværi. Við tökum höndum saman og snúum bökum saman. En þessa eiginleika þurfum við að rækta, hvert og eitt, alltaf, í daglegu lífi.

Já, ég trúi á hið góða í manninum. Innst inni langar okkur til að láta gott af okkur leiða. En ég trúi ekki bara á hið góða í Íslendingum, heldur mannskepnunni sem slíkri, þrátt fyrir ólíkt uppeldi og ólíka menningarheima.

Þess vegna trúi ég líka á að við getum mæst á miðri leið, ef við hlustum og vörumst sleggjudóma um menn og málefni. Raunar standa hleypidómar oft í vegi fyrir því að við áttum okkur á að það er fleira sem sameinar okkur en sundrar.

Einu sinni var mér boðið í brúðkaup ásamt sambýlismanni mínum hjá trúarhópi sem var þekktur að því að hafa hatrammar skoðanir í garð samkynhneigðra, með Biblíuna á lofti. Skemmst er frá því að segja að við mættum einstaklega ljúfu og hlýlegu viðmóti og vonandi sýndum við það á móti. Sumir höfðu á orði að múrar hefðu fallið í huga þeirra þegar þeir sáu að við vorum bara ósköp venjulegt fólk eins og þeir. Á heimleiðinni sögðum við báðir í kór: Ætli við höfum ekki bara lært meira um okkar eigin fordóma í garð þessa fólks en við áttum von á?

Ef við leggjum áherslu á gleðina sem býr í brjósti okkar minnkar þörfin fyrir að finna eitthvað neikvætt í fari annarra. Lífið er of stutt til þess að eyða því í látlaust ergelsi og sífur. Við getum ekki stjórnað öðrum, en við getum stjórnað eigin viðhorfum og framkomu og oftar en ekki höfum við meiri áhrif en okkur grunar með því. Við græðum því ekki síst sjálf á því að vera velviljuð og rækta það fegursta og besta sem í okkur býr.

Upplitsdjörf þjóð með heilbrigða sjálfsmynd er miklu betur í stakk búin að takast á við lífið af léttleika, snúa slæmri þróun við og hlusta með opnum huga á það sem aðrir hafa að segja.

Byggjum okkur upp. Við þurfum á því að halda til að brjótast út úr bylgjum neikvæðni sem bælir sköpunargleði og lamar frjósemi hugans. Áföll og streita valda því að við förum í vörn, heilinn skynjar hættu. Við verðum árásargjarnari og sýnum frekar neikvæð viðbrögð heldur en ef okkur líður vel. Þetta gerðist til dæmis í kjölfar hrunsins og ennþá súpum við seyðið af þeirri vanlíðan.

En hvar eigum við að byrja? Hverju getum við breytt ein og sér? Hnattvæðing umhyggjunnar byrjar hjá okkur sjálfum.“ Svona komst Karl Sigurbjörnsson að orði í ræðu fyrir ári síðan og þessi setning greyptist í huga mér, mér fannst hún svo kjarnmikil. Hnattvæðing umhyggjunnar byrjar hjá okkur sjálfum. Við getum byrjað á að reyna að vera góð fyrirmynd. Við getum litið í eigin barm, þakkað fyrir þær gjafir sem að okkur eru réttar. Lífið sjálft er undur sem gleymist stundum að þakka fyrir.

Við getum hugað að eigin heilsu, hreyfingu og hollu mataræði, núvitund, eða notað hvaða aðrar aðferðir aðrar sem okkur hugnast, til að byggja okkur upp. Ef við byggjum okkur upp og líður vel í eigin skinni, treystum við sjálfum okkur, erum óttalaus, og þá erum við frekar skapandi og frjó. Við eigum hægara með að horfast í augu við verkefnin, jafnvel þó að þau geti virst snúin. Við horfum á þau hlutlægt, án hræðslu. Ef við rekumst á einhvern sem er viti sínu fjær af reiði, horfum við á manneskju sem er í ójafnvægi, án þess að það hafi áhrif á okkur, í stað þess að við tökum það inn á okkur, förum í vörn og látum það setja okkur út af laginu. Fyrsta hugsunin er miklu fremur hvernig við getum komið manneskjunni til hjálpar.

Á hinn bóginn er alls staðar kærleiksríkt fólk sem gott er að halla sér að, ef við lítum í kringum okkur. Sums staðar er svo fólk sem þarf á útréttri hjálparhönd að halda og fátt nærir gleðina í brjóstinu eins og að geta veitt öðrum birtu inn í tilveruna.

Já, við þurfum að taka lífið á gleði og húmor, gleðinni yfir því að vera til og láta ljós kærleika skína frá okkur með brosi sem getur dimmu í dagsljós breytt. Út með illsku og hatur, inn með gleði og frið. Og von.

Í hönd fer jólaundirbúningur með sínum hefðum og yndislegri eftirvæntingu. Látum samt neysluofgnótt ekki ná tökum á okkur. Hún gerir okkur ekki hamingjusamari. Verum skynsöm og njótum þess fyrst og fremst að vera með okkar nánustu, munum eftir hinum öldruðu og sjúku, sem ekki hafa tækifæri til að taka þátt í gleðinni og gefum þeim samlíðan. Fyllumst þakklæti, fögnuði yfir komu frelsarans og vonarríkri framtíð. Bænin fyllir okkur von. Mig langar til að enda þetta á ósk um frið í jólaljóði eftir föður minn, Jólaljós.

Friðarljós!
á kyrru jólakveldi!
Á vopnanna veldi
vinni ljómi þinn.
Jólaljós!
þinn bjarmi flytji friðarmál
svo forðast megi vítisbál
sem brennir barnsins kinn.
Oft er í skörpu skini
skelfing og hættuspil.
Stundum af litlu ljósi
leggur bestan yl.

Megi vonin um frið og gleðin yfir því að vera til fylgja okkur öllum. Ég óska ykkur öllum gleðilegrar jólaföstu, kæru vinir.12349413_10208483342547427_1246078986_o